Eðli og umhirða
Ábyrgð hundeigenda og eingileikar hunda
Þegar þú eignast hvolp ertu að taka að þér lifandi veru sem þarfnast umhyggju þinnar, umhirðu og þjálfunar. Ef þú ert ekki tilbúinn til að leggja þitt af mörkum, tíma, ástúð og umhyggju skaltu alls ekki takast á hendur það krefjandi og gefandi viðfangsefni sem er að fá þér standandi fuglahund.
Eiginleikar hvolps og eiganda
Upplag hvolpa ræður miklu um árangur af veiðiþjálfun. Hinu má þó ekki gleyma, að þið eruð tveir sem þjálfið veiðarnar saman, þú og fuglahundurinn þinn. Ef annar kann og getur, en hinn ekki, þá er nokkuð útséð með árangurinn. Hverjir svo sem eiginleikar ykkar eru, verðið þið báðir að leggja ykkur fram. Þú verður að kynna þér þjálfun fuglahunda, nota heilbrigða skynsemi og einbeita sér að þjálfuninni þegar hún fer fram. Þú verður að haga þjálfuninni í samræmi við getu og fram farir hundsins. Það koma örugglega tímabil við þjálfunina þegar allt fer í handaskol, en á öðrum tímum er eins víst að allt gengur upp og hundurinn lærir hratt og vel. Þú verður stöðugt að endurmeta þjálfunina, hvað þú ert að gera og af hverju. Hvort einn þáttur sé svo vel lærður að hægt sé að bæta við nýjum.
Þú skalt einnig muna, að það skiptir einungis þig sjálfan máli hver árangurinn verður af þjálfuninni. Með vali og kaupum á hvolpi, ert þú að leggja grunninn að árangri við þjálfun og veiðar í ókomin ár. Þú ert ekki að eyða peningum. Nei. Þú ert að velja þér veiðifélaga;
• félaga sem þú ætlar að vera mikið með við þjálfun,
• félaga sem þú vilt skilja og skynja hvernig veiðir,
• félaga sem hefur ánægju af að vera með þér og veiða með þér,
• veiðifélaga sem er tryggur og trúr hvort heldur gengur vel eða illa.
Með hvolpi af góðum uppruna eignast þú ekki sjálfkrafa veiðihund. Þegar þú eignast hvolp, sem hefur til að bera alla þá eiginleika sem þarf til að úr verði afbragðs fuglahundur, þá skaltu ekki gleyma því að þjálfunin og þín vinna ræður öllu um það hvernig til tekst við að hagnýta eiginleika hvolpsins. Afleiðing rangrar þjálfunar, skapvonsku og óþolinmæði verður ævinlega ein og sú sama, þ.e. ráðvilltur, óöruggur og aumkunarverður fuglahundur.
Markmið hreinræktunar fuglahunda
Hreinræktaður hvolpur fuglahunds, er afrakstur áratuga skipulegs ræktunarstarfs, þar sem markmið hefur verið að tryggja að hann búi yfir mikilvægum eiginleikum til rjúpnaveiðar, s.s.;
• greind og hæfni til að læra,
• hafi mikið og nákvæmt þefskyn,
• skynsemi til að meta aðstæður á veiðisvæði og þegar fugl er í nánd,
• góða líkamsbyggingu fyrir mikla markvissa yfirferð við veiðar,
• mikið þol og þor við veiðar,
• góðar og skýrar hreyfingar við veiðar svo eigandi skynji hundinn.
Alla þessa framræktuðu eiginleika ætlast veiðimaður til að fá við kaup á hvolpi fuglahunds sem hann greiðir hóflegt verð fyrir. Hreinræktuðum hvolpum fylgir alltaf ættbók og heilsufarsvottorð, auk þess sem hvolpurinn skal vera bólusettur gegn sjúkdómum og hreinsaður af sníkjuormum. Þá fylgir góðum hvolpum brennandi áhugi ræktandans á að vel takist til við uppeldi og þjálfun hvolpsins og því samfara fylgir góðfúslegur vilji til að fræða og leiðbeina hinum nýja eiganda.
Þú einn tekur ákvörðun um úr hvaða goti þú vilt hvolp og hvort þú færð þann hvolp sem þér líst á. Þú metur að verðleikum ráðleggingar ræktandans um eiginleika hvolpanna. Hann hefur jú nánust kynni af þeim og veit um skapferli þeirra og tilburði. Fyrsta auglýsingin, um hvolpa fuglahunda sem þú sérð, er nær örugglega ekki auglýsing um hvolpa sem búa yfir þeim eiginleikum sem henta þér best við þjálfun og veiðar. Auglýsing á hvolpum má reyndar aldrei ráða því að þú eignist fuglahund, heldur skaltu láta ræktunarmarkmiðið með gotinu og líklega eiginleika hvolpanna ráða því, hvenær þú eignast hvolpinn sem verður þinn veiðifélagi til fjölda ára. Kannski er ástæða fyrir þig að bíða eftir goti í nokkra mánuði eða jafnvel lengur. Þegar þú tekur að þér hvolp ertu að velja þér veiðifélaga, en ekki að stofna til skyndikynna.
|