Fuglahundadeild mynd 9
Leita á vefsíðu

Póstlisti




Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7085912

Á veiðislóð með unghundi


Deila

Á veiðislóð með unghundi


Æfing á standi í veiðilendu


Þjálfun á standi er best að vinna að hausti, frá því rjúpnaungarnir eru vel fleygir um 20. ágúst og fram í október, þegar þeir hverfa til fjalla vegna hvíta búningsins sem gerir þær svo áberandi í snjólausum lyngmóum. Einnig er mjög gott að þjálfa stand síðari hluta vetrar, frá því um miðjan febrúar þegar dag er farið að lengja og rjúpurnar eru komnar nærri byggð og hafa róast eftir að skotveiðum var hætt. Yfir harðasta vetrartímann og fram til vors eru rjúpurnar gjarnan í lyngmóum og kjarrlendi, þar sem þær éta brum og mjúka sprota af birki- og víðirunnum. Slóðirnar þeirra sjást þá vel og þær gefa þér því færi á að sjá fyrir ef líkur eru á rjúpum á veiðislóð ykkar.

Þú sendir hundinn af stað og lætur hann leita eins og honum hefur verið kennt. Þar sem þú býst nú við fugli þá hefurðu ekki augun af honum. Þegar hann sýnir merki um að rjúpa sé í nánd þá hraðar þú þér í átt til hans, en ert jafnframt tilbúinn til að gefa honum stöðvunarmerki. Ef hundurinn æðir að rjúpu án þess að stoppa, þá skiparðu NEI og síðan SITT með tilheyrandi handauppréttingu og dómaraflauti. Þannig tryggirðu að hann setjist þegar fugl flýgur upp. Ef hundurinn hagar sér rétt, þ.e. stendur og bendir á rjúpuna, þá skaltu vera tilbúinn að stöðva hann, ef á þarf að halda. Á leið þinni til hundsins, þá talar þú til hans rólega. Ef hann fer af stað þá skiparðu NEI og SITT ef rjúpan brestur upp.

Þegar ykkur tekst vel upp og þú kemst að hægri hlið hundsins, þar sem hann stendur og rjúpan liggur kyrr, þá hrósarðu honum varlega og talar við hann jafnframt því sem þú lætur hann standa um stund og benda á rjúpuna. Þú krýpur við hlið hans, strýkur eftir hryggnum á honum um leið og þú talar til hans rólega, hrósar honum og styrkir stöðugleika hans á standi. Síðan fælir þú rjúpuna upp, skipar SITT og lætur hundinn setjast. Þegar að rjúpan er flogin, þá læturðu hundinn sitja um stund. Þú skalt ekki leyfa hundinum að æða í þá átt sem fuglinn flaug og ekki heldur senda hann til að skoða hvar rjúpan var, því þá ertu að gefa honum til kynna að hann megi fara á eftir þeim fuglum sem hann fælir eða rekur upp.

Ef þú byrjar of snemma á að láta hundinn reka bráðina upp, er hætt við að hann verði ótryggur á standi, þ.e. rjúki að rjúpunni og fæli upp þegar þú nálgast hann. Þegar svo er komið, þá er stutt í að hann æði á eftir öllum rjúpum sem hann finnur og fæli þær upp löngu áður en þú kemst í skotfæri. Þá getur á stundum verið ástæða til að láta hann vera með langa tauminn, þannig að þegar hann tekur stand þá getirðu náð taumhaldi á honum úr nokkurri fjarlægð. Mikilvægast er þó að þjálfa markvisst SITT skipunina, þér við hlið og síðar í fjarlægð.

Nýttu þér það er hundurinn fælir upp rjúpu

Þegar rjúpa fælist upp undan hundinum, t.d. þegar hann er í tuga metra fjarlægð frá þér og þú því ekki í aðstöðu til að tryggja standinn, þá máttu ekki reiðast heldur láttu hann setjast og bíða þar til þú kemur til hans. Þegar hundurinn er sestur, þá fylgistu nákvæmlega með hvar rjúpan sest. Þannig reynirðu að nýta þér það óhapp að hundurinn fældi upp bráð, þ.e. þú veist þá hvar rjúpu er að finna og getur því lagt upp leit og þjálfun, svipað og þú hefðir sett út ræktaða fugla.

Þegar þú veist um nýsesta rjúpu, þá læturðu hundinum ekki fara strax að þeim. Til að auka líkur á að hundurinn finni sterka lykt af rjúpum þurfa þær að halda sig á nýja staðnum í nokkurn tíma, setja þar mark sitt á landið og þvælast um. Þú leitar því með hundinum í áttina frá rjúpunum, en eftir 10 - 20 mínútur þá snýrðu við og beinir hundinum í átt að þeim stað sem rjúpurnar settust. Nú tryggirðu að hundurinn komi að svæðinu upp í vindinn, því það auðveldar honum veiðivinnuna. Þú tekur mið af yfirferða hans þannig að þú sért einungis stutt frá honum þegar hann kemur í lyktarsveipa frá rjúpunum. Þá getur þú fylgt eftir skipunum við stand eða uppflug rjúpnanna.

Fyrstu rjúpur felldar

Eftir markvissa veiðiþjálfun, þegar hundurinn er tryggur á standi og að hann sest alltaf þegar rjúpur fljúga upp, þá ferðu með hann til veiða. Vertu byssulaus sjálfur og einbeittu þér að hundinum, en hafðu veiðifélaga þinn með þér sem skyttu.

Mjög mikilvægt er, að veiðar á fyrstu rjúpunum yfir hundinum gangi snurðulaust fyrir sig. Rjúpurnar þurfa að falla við skot og hundurinn má alls ekki hlaupa að þeim þegar þær falla. Þegar hundurinn tekur stand, þá færðu félaga þinn til að fylgja þér að hundinum. Þú ferð upp að hlið hans en félagi þinn kemur sér í góða skotstöðu. Þú fælir svo rjúpurnar upp og lætur hundinn setjast, en félagi þinn skýtur rjúpur á flugi. Þú tryggir hinsvegar að hundurinn setjist og sitji grafkyrr þótt rjúpan falli. Félagi þinn fer svo og sækir fallna bráð. Þetta endurtakið þið við fyrstu 5 - 10 rjúpurnar sem þið veiðið saman.

Ef þú missir hundinn í fyrstu rjúpurnar sem falla, þá vekur það upp mjög kröftuga löngun hans til að rjúka í fugl við skot eða þegar rjúpa fellur. Tryggðu því að fyrstu rjúpurnar falli fyrir skoti og að hundurinn sitji þá grafkyrr. Láttu ekki fyrstu skotin á rjúpu eyðileggja stöðugleika hundsins þíns, sem þú hefur eytt svo miklum tíma í að þjálfa.

Þú mátt aldrei skjóta úr byssunni nema þú vitir hvar hundurinn þinn situr stöðugur, þegar rjúpur fljúga upp. Fylgst þú með hundinum, stöðvaðu hann um leið og honum dettur í hug að æða af stað og láttu þjálfun hans og öryggi ganga fyrir veiðunum.