Fuglahundadeild mynd 2
Leita á vefsíðu

Póstlisti




Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7085840

Þroskaferill hunds


Deila
Þroskaferill hunds

FRÁ HVOLPI TIL FULLÞROSKA HUNDS


Höfundur Per Harald Nymark

Þýðing Erlendur Jónsson


Tíkin er fyrsti foringinn sem hvolpar kynnast. Þegar við svo eignumst hvolp, oft um 8 - 10 vikna gamlan, þá tökum við að okkur foringjahlutverkið. Sem eigandi veiðihunds er okkur mikilvægt að vita hvaða þroskaferli hvolpur á fyrir höndum og hvernig við getum á jákvæðan hátt mótað þann þroska.

1. Fósturstig

Á fósturstiginu er mikilvægt að tíkin hafi ró og öryggi, auk þess sem hún þarf næringarríkt og gott fóður. Stress og álag á hvolpafullar tíkur hefur áhrif á hormónajafnvægi í þeim sem aftur getur haft umtalsverð áhrif á þroska hvolpanna í móðurkviði.

2. Fæðingin

Jafnan er best að tíkin sjái um fæðinguna að sem mestu leiti sjálf. Hvolparnir þurfa einnig að fá sjálfir tækifæri til að finna spenana og er það skoðun ýmsar hundaræktenda að það sé mikilvægt fyrir þroskun leitarþarfar hjá hvolpunum að þeir sjálfir finni spena tíkarinnar. Jafnvel vilja sumir meina, að hvolpar sem ekki komast sjálfir á spena, eigi vart tilverurétt. Víst er að í villtri náttúru lifa slíkir hvolpar ekki af.

3. Frá fæðingu til 3. viku

Þessar fyrstu vikur í ævi hvolpa, snúast um hlýju, mat, svefn og að tíkin þvoi þeim og gæli við þá. Á þessum tímabili, er allt sem hvolparnir taka sér fyrir hendur þeim fullkomlega eðlislægt. Þeir eru heyrnarlausir og blindir. Þegar þeir vaka snýst tilveran fyrst og fremst um að finna spena tíkarinnar og sjúga sig metta af móðurmjólkinni, áður en þeir sofna að nýju. Í hvolpakassanum, sem er þeirra heimur, þarf hiti helst að vera um 25°C. Of hár hiti eða of lágur, valda vanlíðan hjá hvolpunum. Tíkin þarf á þessum tíma mjög góða aðhlynningu og umfram allt ró og frið. Ef tíkur eru órólegar í hvolpakassanum á þessum tíma, smitast það oft í hvolpana.

4. Frá 4. til 12.viku

Á þessu tímabili eiga sér stað ótrúlega miklar breytingar á hvolpunum og þá fer í hönd afar mikilvægur tími í þroskun þeirra sem félagsvera. Eftir 3. viku eru þeir vel sjáandi og þeir byrja að hreyfa sig um og eftir 4. viku byrja þeir að bregðast við umhverfi sínu og aðstæðum. Mikilvægt er á þessum tíma að þeir venjist manneskjum og fái töluverða athygli, hver og einn. Hvolparnir eru forvitnir, jákvæðir og þeim líkar vel að gælt sé við þá og leikið. Þeir verða sífellt áræðnari og fyrirferðin í þeim vex dag frá degi. Við leik og ærsl, byggja þeir upp virðingarstiga sín í millum. Í leik þeirra og ærslum, má sjá ýmis merki um veiði og átök, sem þroskast með þeim jafnt og þétt og eru þeim síðar afar mikilvæg til að lifa í heimi fullvaxta hunda. Það sem þeir læra á þessu tímabili, býr í þeim alla tíð.

Síðar á lífsleiðinni sést glöggt hvort hvolpar hafa upplifað margbreytileg áhrif og áreiti á þessum tíma, eða hvort þeir hafa verið lokaðir af, í hálfgerðri einangrun. Hvolpum sem í eðli sínu eru veiklyndir, þurfa mjög á jákvæðri hvatningu að halda á þessu tímabili ævinnar.

Hvolpur sem í slagsmálum við systkini sín fer oft með sigur af hólmi, verður ákafur í ærsl og átök, hann verður ágengur og ákafur. Flestar tíkur kenna hvolpunum á þessum tíma, hver ræður og hvenær þeim ber að gefa eftir. Eftir því sem þeir stækka og þroskast, verða þau skilaboð skýrari og jafnvel grimmari. Smám saman minnkar mjólkin í spenum tíkarinnar og hún byrjar að venja þá af spena. Hún hættir að leyfa þeim að sjúga sig hvenær sem þeim hentar, verður ákveðin við þá og jafnvel höstug þegar þeir verða of ágengir við hana. Hún tekur þá jafnvel hastarlega í gegn, þegar þeir ekki hlýða, jafnvel svo að hvolparnir skrækja og væla, jafnframt því sem þeir verða undrandi og hvekktir við. Þetta uppeldi tíkarinnar, er afar mikilvægur þáttur í að kenna hvolpunum að hlýða og bregðast rétt við skipunum. Þá er ekki óalgengt að tíkur blandi sér í slagsmál og ærsl hvolpanna, þegar þau verða of kröftug og þannig kennir hún þeim einnig að haga sér vel og hlýða foringjanum. Tíkin skerpir jafnt og þétt forystustöðu sína, agar hvolpana og kennir þeim að virða foringjann. Fyrir komandi hvolpaeigendur, er mjög mikilvægt að tíkin sinni þessu hlutverki sínu, því það auðveldar nýjum eigenda að taka hennar stöðu, þ.e. foringjastöðuna.

Þegar hvolpurinn fer frá tíkinni, á nýtt heimili eigenda síns, er það mikið álag og áfall. Hvolpakaupendum ber að gera þessa umturnun á lífi hvolpsins, eins ljúfa og létta og kostur er. Þegar hvolpurinn hefur svo aðlagast nýju heimili, koma eðliseiginleikar hans í vaxandi mæli fram. Andlega harður hvolpur þolir venjulega órólegt heimili, en mjúkir hvolpar eða hvolpar með skapgerðargalla þola það miklum mun ver. Nýr hvolpaeigandi þarf því sem fyrst, að gera sér grein fyrir skapgerð hvolpsins og byggja aðlögun hans og þjálfun á þeim grunni.

5. Frá 12. til 16. viku

Framleiðsla kynhormóna fer vaxandi í hvolpunum á þessum tíma og hvolpurinn reynir að marka sér virðingarstöðu í fjölskylduflokki sínum. Sérstaklega þarf maður að vera vakandi yfir því hvernig hvolpurinn hagar sér gagnavart smábörnum á heimilinu. Upplifun hvolpsins og mótun á þessu tímabili hefur afgerandi áhrif á alla hans framtíð.

6. Frá viku 16 til 7 mánaða aldurs

Þetta tímabil er jafnan mjög heppilegt til ögunar og þjálfunar hvolpa, enda eru þeir þá jafnan mjög næmir og yfirleitt rólegir. Þeir eru gjarnan mjúkir og viðkvæmir, þó ærslin virðist á stundum benda til annars. Mjög mikilvægt er að nýta þetta tímabil til að móta og þjálfa hvolpa, því hér er lagður grunnur að þjálfun á komandi tímabili.

7. Frá 7. mánuði til 12 mánaða aldurs

Á þessu tímabili verða hunda líkamlega kynþroska og reyna þeir þá ákaft, að marka sér háa virðingarstöðu í fjölskylduflokknum. Þetta felur oft í sér fjölmörg vandamál, þegar hundurinn prófar styrk sinn í fjölskyldunni. Karlhundar byrja að lyfta löpp og tíkur lóða gjarnan í fyrsta sinn. Yfirleitt er þetta tímabil betur til þess fallið, að viðhalda og skerpa á því sem hundur hefur þegar verið þjálfaður í, heldur en að byrja á nýjum viðfangsefnum. Hafa ber þó í huga, að þetta tímabil er við nokkuð breytilegan aldur allt eftir hundakynjum. Gott er að nota þetta tímabil til að styrkja forystuhlutverk sitt sem eiganda og beita til þess aðferðum allt eftir því hvernig einstaklingur hundurinn er. Mikilvægt er að veita hundinum mikla athygli, hrósa honum vel og sýna þolinmæði og yfirvegun, en umfram allt ákveðni og forystustöðu sína.

8. Frá 12 til 20 mánaða aldurs

Þetta tímabil hentar mjög vel til þjálfunar hunda. Unghundarnir eru nú fullfærir um að taka við skipunum og halda góðri einbeitingu við æfingar. Úthald þeirra er mikið og þörf fyrir hvetjandi verkefni. Þetta tímabil er afar áhrifaríkt í þjálfun og því lífsnauðsynlegt að nýta það vel og jákvætt. Á þessum tíma er jafnan rétt að venja hunda alfarið af áhuga á sauðfé (jafnvel með þjálfurum).

9. Tímabil kringum 20 - 25 mánaða aldurinn

Hundurinn þroskast mjög andlega, hann fullorðnast og reynir oft að komast upp virðingarstigann í fjölskylduflokknum. Hafi hundur fyrir þetta tímabil, fengið að ríkja yfir einhverjum á heimilinu, er viðbúið að það magnist mjög og hann verði ágengur. Því er mjög mikilvægt, að fyrir þetta tímabil, sé hundinum alveg ljóst hver er foringinn og að allt fólk á heimilinu sé ofar honum í virðingarstiganum.

Yfirleitt er gert ráð fyrir að hundur sé fullþorska við um 25 mánaða aldur. Auðvitað er munur á einstaklingum hvað þetta varðar, en við þann aldur á hundur að vera fær um að gera það sem honum er skipað og vinna með eiganda sínum af fullri athygli og einbeitingu.