Fuglahundadeild mynd 1
Leita á vefsíðu

Póstlisti




Á döfinni

Meira...


Heimsóknir: 7154692

Fréttir


Kaldaprófið hefst á föstudaginn kl. 9 !

25.4.2018
Stækka mynd
Á föstudagsmorgun þann 27. apríl kl. 09:00 verður Kaldapróf FHD sett í stóra húsinu í Ytri-Vík, prófið er þriggja daga próf og verður prófað í öllum þremur flokkum alla dagana.  Dómarar prófsins eru : Andreas Björn og Ronny Hartviksen frá Noregi og Svafar Ragnarsson frá Íslandi.  Fulltrúi HRFÍ er Svafar Ragnarsson og prófstjórar eru Unnur Unnsteinsdóttir (s: 866 7055) Páll Kristjánsson og Guðbjörg Guðmundsdóttir (s: 863 8062).

Prófað verður á norðurlandi og prófstjóri fyrir norðan hefur fundið fyrir okkur ný og spennandi prófsvæði, við gerum ráð fyrir að nóg verði af fugli og að sem flestir hundar hafi tækifæri á fuglavinnu.  

Á föstudagskvöldi eftir prófdag verður boðið upp á hamborgaraveislu í stóra húsinu á Ytri-Vík í boði Melabúðarinnar og eru allir þátttakendur velkomnir.  Veislan byrjar kl. 18:00 stundvíslega því kl. 19:30 ætlum við að vera mætt í Kaldaverksmiðjuna þar sem okkur verður boðið upp á kynnisferð um verksmiðjuna og smakk.  Ferðin í Kaldaverksmiðjuna kostar 2000 krónur á mann, rútuferð verður í boði frá Ytri-Vík og verður verði í rútuna haldið í lágmarki.  

Á laugardagskvöldi eftir prófdag verður boðið upp á sameiginlega máltíð í stóra húsinu í Ytri-Vík, og eru allir þátttakendur velkomnir, maturinn byrjar stundvíslega kl. 19:00 en eftir mat munu Andreas Björn og kona hans Hege halda, fyrir alla áhugasama, fyrirlestur um þeirra líf með hunda, þjálfun veiðihunda og veiðar með þeim.  Einnig verður þá um kvöldið veittur farandgripurinn Karri Kaldi sem upprunanlega var gefinn var af Danda og Hrafni fyrir besta hund prófs föstudag og laugardag.  

Prófið verður sett í stóra húsinu í Ytri-Vík alla dagana, kl. 09:00 föstudag og laugardag, en kl. 10:00 á sunnudag.  Prófi verður slitið alla daga á prófsvæði.  

Prófstjórar vilja benda öllum á að lausaganga hunda á svæðinu um Ytri-Vík er stranglega bönnuð og skylt er að þrífa upp skít eftir hundana.  

Veitt verða verðlaun fyrir bestu hunda dags í hverjum flokki og hund í fyrsta sæti í keppnisflokki.  

Ekki væri hægt að halda jafn veglegt próf og þetta án styrktaraðila og erum við afskaplega þakklát Dýrheimum umboðsaðila Royal Canin á Íslandi sem er aðalstyrktaraðili FHD og gefur verðlaun fyrir sigursælustu hunda prófsins,  RJC sem styrkir okkur um eðalromm í verðlaun, Kaldaverksmiðjunni sem bæði tekur á móti okkur og gefur framleiðslu sína í verðlaun, Melabúðinni sem býður upp á hamborgaraveisluna, Norðlenska sem gefur kjötið í sameiginlegu máltíðina, Hlað sem styrkir prófið og Veiðiríkinu á Akureyri sem einnig styrkir prófið.  

Þar sem hluti þátttakenda gista í stóra húsinu í Ytri-Vík þá er ætlast til  að þeir sem mæta hjálpi til við frágang eftir veislurnar og algjört skilyrði er að ró verði komin þar kl. 23:00 á laugardagskvöldinu.   

Spennandi helgi er framundan og við hlökkum mikið til að eiga með ykkur flott próf og skemmtilegar stundir. 

Kveðja frá prófstjórum